Erlent

Ástand heimsins í nokkrum myndum

Óli Kristján Ármannsson skrifar skrifar
Maður fær sér lúr á Taksim-torgi í Istanbúl nærri veggspjaldi þar sem Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra landsins, er sýndur í gervi Hitlers. Í landinu halda áfram mótmæli þar sem krafist er aukins frjálsræðis, en þeim hafa stjórnvöld mætt af mikilli hörku.
Maður fær sér lúr á Taksim-torgi í Istanbúl nærri veggspjaldi þar sem Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra landsins, er sýndur í gervi Hitlers. Í landinu halda áfram mótmæli þar sem krafist er aukins frjálsræðis, en þeim hafa stjórnvöld mætt af mikilli hörku. Nordicphotos/AFP

Víða um heim er ófremdarástand. Í Tyrklandi er slegist og í Mið-Evrópu eru mikil flóð sem plaga fólk.

Hér má sjá nokkrar myndir sem gefa örlitla nasasjón af ástandi heimsins eins og það var í gær.

Stuðningsmenn Janez Jansa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, komu saman fyrir utan dómhúsið í Ljubljana þar sem Jansa var í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hann var fundinn sekur um að hafa bæði greitt og þegið mútur í stærsta varnarsamningi sem landið hefur gert. Keypt voru brynvarin farartæki frá finnska hergagnafyrirtækinu Patria.Nordicphotos/AFP
Ísraelskir hermenn standa vörð vegna átaka við palestínska mótmælendur við Ofer-fangelsið ísraelska í Betúníu, nærri Ramallah á Vesturbakkanum. Mótmælendur minnast „Naksa“ (afturfararinnar), þegar Ísrael hertók Vesturbakkann og Gasa fyrir 46 árum í Sex daga stríðinu.Nordicphotos/AFP
Íbúar reyna að bjarga bíl úr umflotnum bílskúr í Dresden í austanverðu Þýskalandi þar sem áin Saxelfur rennur. Stjórnvöld ætla að setja 100 milljónir evra í neyðaraðstoð vegna flóða sem þegar hafa orðið ellefu að bana og hrakið tugþúsundir frá heimilum sínum í Mið-Evrópu.Nordicphotos/AFP
Í þorpinu Luni í héraðinu Mundra Taluka sýnir Hirenbhai Bheda stoltur veggklukku sem gengur fyrir rafmagni sem fengið er úr kúahlandi. Orkuframleiðslan er hluti af tilraunaverkefni góðgerðasjóðsins Shree Vardhman Jivdaya Kendra, sem rekur stórt kúabú. Hlandið í krúsunum tveimur á að geta látið klukkuna ganga í tæpan mánuð.Nordicphotos/AFP
Sonur fangelsuðu konunnar Yorm Bopha og fólk frá þorpinu Boeung Kak kalla eftir því að hún verði leyst úr fangelsi fyrir utan áfrýjunarréttinn í Phnom Penh í gær. Bopha, sem barðist fyrir landréttindum á svæðinu, var í desember dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa átt þátt í að berja tvo karla. Mótmælendurnir segja ásakanir á hendur henni hafa verið uppspuna til að þagga niður í henni.Nordicphotos/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×