Erlent

Söfnuðu símagögnum tugmilljóna notenda

Þorgils Jónsson skrifar
Breska blaðið Guardian fletti ofan af heimildum Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna til þess að afla gagna um símtöl tugmilljóna viðskiptavina Verizon-símafyrirtækisins.
Breska blaðið Guardian fletti ofan af heimildum Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna til þess að afla gagna um símtöl tugmilljóna viðskiptavina Verizon-símafyrirtækisins. NordicPhotos/AFP

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur undanfarnar vikur safnað gögnum frá milljónum notenda Verizon símafyrirtækisins.

Í frétt Guardian segir að gagnasöfnun þessi sé á grundvelli leynilegarar heimildar sem byggir á hinum svokölluðu föðurlandsvinalögum, sem sett voru í kjölfar árásanna 11. septemb er 2001, til að berjast gegn hryðjuverkum.

Samkvæmt umræddri heimild er Verizon gert að afhenda NSA upplýsingar um öll símtöl innan kerfis fyritækisins frá 25 apríl fram til 19. júlí.

Þar er um að ræða upplýsingar um númer beggja aðila, staðsetningu, tímasetningu og lengd símtalanna, en ekki um hvað notendum fór á milli.

Ekki hefur áður frést af jafn víðtækri heimild til eftirlits, en Verizon telur rúmlega 120 milljónir viðskiptavina. Jafnan takmarkaðast heimildir við einstaklinga eða hópa sem grunaðir eru um að starfa með hryðjuverkahópum eða á vegum erlends ríkis.

Þetta er í fyrsta sinn sem upp kemst um svo víðtækar aðgerðir undir stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta, en á valdatíð George W. Bush stundaði NSA símhleranir án réttarheimilda, og vakti það mikla óánægju. Ekkert hefur enn komið í ljós um ástæður þess að þörf þótti á að fylgjast með þessum mikla fjölda.

Talsmenn Verizon hafa ekki viljað tjá sig um málið, frekar en talsmenn NSA eða Hvíta hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×