„Það er stappað af fólki í bænum núna,“ segir Steingrímur. „Það eru allir stærstu fjölmiðlar heims mættir og húsið okkar er á fréttamyndum um allan heim.“
Steingrímur flutti ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Ósk Sigurðardóttur og tveimur börnum til Rjukan í júní á þessu ári.
Það var norskur verkfræðingur, Sam Eyde, sem fékk hugmyndina að speglunum fyrir um hundrað árum síðan. Steingrímur segir að Eyde verið álitinn galinn en. En núna skína sólargeislarnir beint á hann, eða styttuna af honum á torginu.

Hann segir að þetta sé svipað og á Seyðisfirði á Íslandi, þar sem engin sól sé allan veturinn. „Þeir ættu kannski að íhuga að setja upp svona spegla þar, það gæti þó verið að þar sem fjöllin eru miklu hærri þar en hér að það gangi ekki upp.“
Steingrímur segir að aðgerðin við að koma speglunum upp hafi kostað um 100 milljónir íslenskra króna. Þegar þau fluttu í bæinn í júní voru þyrlur á ferðinni og fólk uppi í fjallinu, á fullu við að setja speglana upp. Hann segir speglana vera um 150 fermetra að stærð. Þetta séu risa speglar.
Mikið húllumhæ
„Það er mikið húllumhæ í kringum þetta, dóttir mín mun ásamt skólafélögum sínum syngja lagið Let the sunshine in, sem er lag úr Hárinu. Það er búið að setja strandblakvöll upp á torginu. Þetta er uppátækjasamasti bær sem ég hef komið í.“
Steingrímur segir að bæjarbúar fái frí í hádeginu í dag. Hann líkir þessu við að páfinn sé að koma í heimsókn í heimabæ sinn, slíkt sé tilstandið.
„Við erum með besta útsýnið í bænum og það verður svona 20 metra labb fyrir okkur að fara í sólina,“ segir Steingrímur.
Hér að neðan má sjá myndband frá hátíðarhöldunum í Rjukan í Noregi.