Erlent

FBI deilir barnaklámi til að góma níðinga

Robert Mueller, æðsti yfirmaður FBI
Robert Mueller, æðsti yfirmaður FBI Mynd/AP

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hafði upp á barnaklámshring í Nebraska í fyrra. Í stað þess að stöðva starfsemi hringsins um leið hélt alríkislögreglan áfram að deila barnaklámefni í gegnum vefsíðu hringsins í því skyni að góma þá sem voru í samskiptum við og nýttu sér vefsíðu hringsins. Myndirnar sem deilt var sýna þegar börnum er nauðgað, þau höfð til sýnis eða þau misnotuð á annan hátt.

Lögreglan hélt vefsíðunni gangandi í tvær vikur á meðan tilraun var gerð til að komast að því hverjir það væru sem skipuðu hóp meira en 5.000 notenda hennar. Gögn sem voru lögð fram í rétti staðfesta að alríkislögreglan hafi haft þennan háttinn á, en í gögnunum er haft eftir sérfræðingi hjá lögreglunni hvernig rannsóknin fór fram.

Vatnaskil í rannsóknum í málaflokknum

Rannsóknin þykir marka vatnaskil hjá lögregluyfirvöldum vestanhafs sem hafa hingað til beint sjónum sínum að þeim sem hafa framleitt slíkt efni en ekki þeim sem hafa neytt þess.

Hingað til hafa mál af þessu tagi komist upp þegar ábendingar hafa borist lögreglunni og í kjölfarið hafa fulltrúar lögregluyfirvalda hafið rannsóknir. Ekki er vitað til þess að alríkislögreglan hafi áður beinlínis gengið í hlutverk brotamannsins til þess að reyna að hafa uppi á þeim sem hafa neytt efnisins, en samkvæmt fyrrgreindum gögnum mun lögreglan hafa brugðið á þetta ráð þegar hefðbundnar aðferðir báru ekki árangur.

Nánar má lesa um málið á vefsíðu SFGate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×