Enski boltinn

Tevez: Getum unnið tvöfalt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez segir að leikmenn Manchester City hafi ekki gefið upp vonina um að liðið verði tvöfaldur meistari á Englandi í vor.

City er nú sjö stigum á eftir toppliði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en Robin van Persie hefur verið frábær á tímabilinu með síðarnefnda liðinu.

Van Persie var einnig á óskalista Manchester City í sumar en Hollendingurinn ákvað að fara frekar til United. Nýlega lýsti Roberto Mancini, stjóri City, vonbrigðum sínum með að hafa misst af Van Persie og sagði hann líklegan til að leiða United til sigurs í deildinni í vor.

„Þessi orð hvöttu okkur sóknarmenn City áfram," sagði Tevez við enska fjölmiðla. „Við vitum hvað þarf til að halda áfram að berjast. United tapaði nokkrum leikjum á síðasta tímabili og við þurfum fyrst og fremst að halda okkar striki."

„Það er enn mikið eftir af tímabilinu. Við viljum halda áfram að vinna leiki og berjast fyrir titlinum, bæði í deild og bikar. Við viljum vinna báðar keppnirnar."

City mætir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×