Erlent

Gæti stefnt í allsherjar trúarátök í Írak

Þorgils Jónsson skrifar
Óttast er að ofbeldisaldan sem tröllriðið hefur Írak að undanförnu marki upphaf að átökum milli trúarhópa í landinu.
Óttast er að ofbeldisaldan sem tröllriðið hefur Írak að undanförnu marki upphaf að átökum milli trúarhópa í landinu. Nordicphotos/AFP

Byssumenn í Írak drápu fjórtán manns hið minnsta í fyrirsát á rútu í Anbarhéraði í dag.

Tíu hinna myrtu voru lögreglumenn, en fimm voru almennir borgarar úr Karbala-héraði þar sem sjítar eru í meirihluta. Í Anbar er hins vegar meirihluti íbúa súnnítar og eru al-Kaída og fleiri öfgahópar súnníta grunaðir um að standa á bak við verknaðinn. Meirihluti Íraka eru sjítar, en súnnítar réðu ríkjum á valdatíma Saddams Hussein.

Að sögn heimildarmanna AP úr íraska stjórnkerfinu var rúta sem fólkið var í stöðvuð við falska eftirlitsstöð í nágrenni við bæinn Núkaíb. Þar voru þau svo tekin af lífi. Ódæði þetta var framið á svipuðum slóðum og 22 sjíar voru myrtir árið 2011.

Ofbeldi hefur aukist mikið í Írak síðustu vikur, þar sem nær 2.000 manns hafa látist í sprengjuárásum síðan í apríl og óttast margir að átök milli trúarhópa muni brjótast út á ný í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×