Erlent

Upptökuforrit í síma hjálpaði leigubílstjóra að "sanna sakleysi sitt"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Astria Berwick sakaði leigubílstjórann um að hafa ráðist á sig í leigubílnum.
Astria Berwick sakaði leigubílstjórann um að hafa ráðist á sig í leigubílnum. TELEGRAPH
Kona sem sakaði leigubílstjóra ranglega um kynferðisofbeldi hefur nú verið fangelsuð vegna upploginna saka. Atvikið átti sér stað í Bretlandi þar sem Astria Berwick sakaði leigubílstjórann Mohammed Arsi um að hafa ráðist á sig með hníf og beitt sig kynferðisofbeldi.

Leigubílstjórinn „sannaði sakleysi sitt" með upptökuforriti sem hann var með í símanum og hafði í gangi vegna þess að upptökubúnaður leigubílsins var bilaður.

Berwick játaði að hafa logið til um atvikið fyrir rétti og var dæmd í 16 mánaða fangelsi vegna þessa. Málið fór fyrir dóm í Nottingham vegna þess að Berwick hafði sagt lögreglu að Arsi hafi beitt sig alvarlegu kynferðisofbeldi. Dómarinn í málinu sagði Berwick hafa sýnt af sér „fráleita hegðun gagnvart fullkomlega saklausum manni sem var bjargað af upptökunni í símanum."

Berwick hafði logið til um árásina af „óskiljanlegum ástæðum," samkvæmt dómaranum.

Leigubílstjórinn sem er tveggja barna faðir segir lífsreynsluna hafa rústað lífi sínu, sem hafi leitt til þess að hann hafi ekki getað stundað vinnu í mánuð, auk þess sem hann upplifði svefntruflanir og þyngdartap.

„Hún breytti lífi mínu. Ég er allt annar maður í dag og er hræddur við að fara út úr húsi," sagði Asif. „Ég get ekki hætt að hugsa hvers vegna hún gerði þetta. Ég hleypti henni bara út og hún var bara venjulegur farþegi."

Hann sagðist hafa fundist hann vera heppinn vegna þess að hafa kveikt á forritinu, því án þess væri hann að bíða þess að fara fyrir dómara vegna lyganna.

„Ef ég myndi einhverntímann hitta hana aftur, þó að ég vilji það ekki, þá myndi ég bara spyrja: Hvers vegna?"

Nánar er sagt frá málinu á vef Telegraph.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×