Erlent

Partýprinsessan í hnapphelduna

Sænska prinsessan Magðalena gekk að eiga bresk-bandaríska viðskiptajöfurinn Christopher O'Neil í dag. Þau voru gefin saman í Hallarkirkjunni í Stokkhólmi við glæsilega athöfn sem fór bæði fram á sænsku og ensku.

Um fimm hundruð gestir voru staddir í kirkjunni, allt frá kóngafólki yfir í fræga einstaklinga. Meðal gesta var til að mynda John Taylor sem er líklega frægastur fyrir að hafa verið í hljómsveitinni Duran Duran. Og svo kóngafólk frá Evrópu og Japan.



Brúðkaupið var smærra í sniðum en það síðasta. Og kóngurinn borgaði það sjálfur.

Tvö ár eru síðan eldri systir Magðalenu, Viktoría, giftist einkaþjálfara sínum. Það brúðkaup var mun stærra í sniðum en brúðkaupið í dag. Sérfræðingar í kóngafólki segja í samtali við BBC að það sé meðal annars vegna þess að brúðkaupið er í raun einkabrúðkaup. Þannig greiddi faðir Magðalenu, Karl Gústaf konungur, fyrir allt tilstandið en ekki sænska ríkið. Það vantaði þó ekki upp á glæsileikann, en hjónunum var ekið í opnum hestvagni í kirkjuna sem þúsundir fylgdust með.

Hjónakornin kynntust fyrir þremur árum síðan í Bandaríkjunum þegar Magðalena var að störfum fyrir góðgerðarsjóð þar í landi. Þá var hún tiltölulega nýhætt með unnusta sínum, sem var sænskur lögfræðingur.

Athöfnin fór bæði fram á sænsku og ensku.

Magðalena hefur átt í nokkuð stormasömu sambandi við gulu pressuna á Norðurlöndum. Þar var hún oft uppnefndi sem partýprinsessan. Ástæðan var sú að það sást oft til hennar að drykkju á fínustu skemmtistöðum Svíþjóðar.

Eftir brúðkaupið stefna hjónin á að fara til Bandaríkjanna þar sem þau starfa bæði.

Og fyrir þá sem hafa áhuga þá var það ítalski fatahönnuðurinn Valentino Garavani sem hannaði brúðarkjólinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×