Erlent

Indónesía lágmarkar tengslin við Ástralíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Susilo Bambang Yudhoyono Indónesíuforseti ásamt Nadjib Riphat Kesoama, sendiherra Indónesíu í Ástralíu.
Susilo Bambang Yudhoyono Indónesíuforseti ásamt Nadjib Riphat Kesoama, sendiherra Indónesíu í Ástralíu. Mynd/EPA
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, segist ætla að gera allt sem í sínu valdi stendur til að bæta tengslin við Indónesíu á ný.

Samskipti landanna hafa verið stirð frá því uppljóstranir sýndu að Ástralir hafa njósnað um Indónesa.

Í morgun skýrðu indónesísk stjórnvöld frá því að formlega hafi verið dregið verulega úr samskiptunum.

Susilo Bambag Yudhoyono, forseti Indónesíu, sagði að augljóslega verði samvinnu landanna á sviði leyniþjónustumála og upplýsinga tímabundið hætt, auk þess sem engar sameiginlegar heræfingar verði haldnar.

Abbott sagði hins vegar í ástralska þinginu í morgun að vissulega muni hann reyna að bæta tengslin við Indónesíu, en sagði þó óþarfi að „bregðast of hart við núna”.

„Ég harma innilega þau vandræði sem fréttir fjölmiðla hafa valdið Yudhoyono, sem er mjög góður vinur Ástralíu, hugsanlega einn sá allra besti sem Ástralía á í heiminum öllum,” sagði Abbott.

Ástralskir og breskir fjölmiðlar skýrðu á mánudaginn frá því að í þeirra fórum væru skjöl, komin frá bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden, sem sýndu að leyniþjónusta Ástralíu hafi fylgst með símum bæði Yudhoyono forseta, eiginkonu hans og átta ráðherrum og embættismönnum.

Norman Marciano, yfirmaður indónesísku leyniþjónustunnar, sagðist í morgun hafa fengið fullvissu fyrir því, frá áströlsku leyniþjónustunni, að þessu eftirliti hafi verið hætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×