Erlent

Ringulreið á Filippseyjum

Mynd/AFP
Ástandið á Fillipseyjum er skelfilegt eftir að fellibylurinn Hayian gekk yfir eyjarnar og erfiðlega gengur fyrir björgunarsveitir að komast á staðina sem verst urður úti. Talið er að allt að tíu þúsund manns hafi farist í borginni Tacloban einni saman og hundruð eða þúsundir annarsstaðar.

Hundruð þúsunda manna eru nú án húsaskjóls en fellibylurinn ruddi úr vegi íbúðarhúsum, skólum og heilum flugvelli. Í nótt náði stormurinn svo landi í Víetnam en þá hafði dregið úr styrk hans svo nú flokkast hann sem hitabeltisstormur. Þó berast fréttir af því að ellefu hafi látist, hið minnsta.Á Fillipseyjum takast menn nú á við eftirmála hildarleiksins en veðrið er talið hafa haft áhrif á líf fjögurra milljóna manna með einhverjum hætti. Margir eru án matar og hreins drykkjarvatns.

Richard Gordon, yfirmaður Rauða krossins á Fillipseyjum segir algjöra ringulreið ríkja í landinu. Verið er að fjarlægja brak af vegum og vonast Gordon til þess að hjálparstarfið komist á fullt skrið í dag. Þó er veðurspáin ekki góð því djúp lægð með tilheyrandi helliregni gæti farið yfir svæðið á morgun, sem myndi hamla hjálparstarfi enn frekar.

Ef svo fer að rúmlega tíu þúsund manns hafi farist í storminum er um að ræða einn mannskæðasta storm sögunnar. Mannskæðasta óveður til þessa gekk yfir Hong Kong í september 1937 þar sem ellefu þúsund manns fórust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×