Enski boltinn

„Tasha öskraði á mig að koma boltanum í helvítis markið“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Louise Fors og Katrín skoruðu mörkin mikilvægu fyrir framan 2000 áhorfendur í Liverpool.
Louise Fors og Katrín skoruðu mörkin mikilvægu fyrir framan 2000 áhorfendur í Liverpool. Nordicphotos/Getty
„Þetta er frábært. Við lögðum hart að okkur og það er góð tilfinning að ná markmiðum sínum,“ sagði Katrín Ómarsdóttir, leikmaður Englandsmeistara Liverpool, í viðtali við BBC.

Katrín og félagar tryggðu sér titilinn með 2-0 sigri á Bristol City í hreinum úrslitaleik. Liverpool dugði þó jafntefli en gerði gott betur.

„Við reyndum að nálgast leikinn eins og hvern annan þótt þetta hefði í raun verið eins og bikarúrslitaleikur,“ sagði landsliðskonan sem skoraði síðara mark Liverpool í leiknum. Markið skoraði hún með föstu skoti eftir undirbúning Natöshu Dowie.

„Hún öskraði á mig að koma boltanum í helvítis markið,“ sagði Katrín. Tilfinningin hafi verið góð að skora gegn Bristol en það gerði hún einnig í fyrri leik liðanna. Markið var eitt það glæsilegasta í deildinni í ágústmánuði.

„Ég hef ekki skorað mörg mörk en einhverra hluta vegna skora ég gegn Bristol,“ sagði miðjumaðurinn. Árangur Liverpool er athyglisverður því liðið hafnaði í neðsta sæti deildarinnar í fyrra en því efsta í ár.

„Margar okkar voru ekki hér í fyrra. Því hefur þetta ár farið í að kynnast, setja markmið og gera okkar besta. Það gerðum við og það er góð tilfinning að vinna titilinn,“ sagði Katrín.

Titlinum yrði fagnað með því að skella sér út á lífið þar sem mjólk og safi yrði sötraður. Því næst tekur við hlé frá æfingum en liðið kemur aftur saman í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×