Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - Fram 1-2

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Framarar gengu langt með að gulltryggja sæti sitt í Pepsi deild karla á næsta ári með 2-1 sigri á Blikum á Kópavogsvelli í dag. Tvö mörk sitthvoru megin við hálfleikinn dugði gestunum og þrátt fyrir stífa sókn Blika á lokamínútunum héldu gestirnir út.

Þrátt fyrir að vera að berjast á mismunandi vígstöðum í deildinni þurftu bæði liðin nauðsynlega á sigri eftir strembið gengi undanfarið. Blikar höfðu aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum og voru smátt saman að detta úr baráttu um Evrópusæti. Þrátt fyrir að hafa unnið bikarinn hefur gengi Framara verið slakt upp á síðkastið, þeir höfðu einnig aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum og fyrir vikið sogast nær fallbaráttunni.

Fyrri hálfleikur var rólegur, bæði liðin sátu aftarlega og var fátt um fína sóknardrætti. Bæði liðin fengu ágætis hálffæri og voru það gestirnir náðu forskotinu rétt fyrir hálfleik. Orri Gunnarsson fékk þá fyrirgjöf á fjærstöng og sendi aftur inn í markteig þar sem Almarr Ormarsson var mættur og potaði boltanum í autt markið. Blikar náðu ekki að svara og tóku Framarar því eins marks forskot inn í hálfleik.

Leikurinn hressist heldur betur í seinni hálfleik. Framarar skoruðu eftir rúmlega tíu mínútna leik þegar Kristinn Ingi Halldórsson skoraði úr þröngu færi eftir sendingu inn fyrir vörn Blika. Framarar skoruðu svo þriðja mark leiksins en í þetta skiptið í vitlaust net, Halldór Arnarsson skoraði sjálfsmark annan leikinn í röð þegar hann reyndi að hreinsa frá marki skalla Sverris Inga.

Blikar pressuðu stíft síðasta hálftíma leiksins og fengu bæði Árni Vilhjálmsson og Ellert Hreinsson frábær færi en náðu ekki að nýta sér. Þrátt fyrir þunga pressu um tíma náðu Blikar ekki að jafna metin og lauk leiknum því með 2-1 sigri Framara sem gengu langt með að tryggja sæti sitt í Pepsi deildinni á næsta ári með sigrinum.

Blikar hljóta hinsvegar að naga sig í handabökin, bæði FH og Stjarnan misstigu sig og var leikurinn í dag sennilega síðasta tækifæri þeirra til að blanda sér í baráttuna um Evrópusæti.

 

Ríkharður: Mikill léttir„Það er óhætt að segja að þetta hafi verið ljúfur sigur, við erum búnir að vera að ströggla og með menn í meiðslum en náðum að klára þetta,“ sagði Ríkharður Daðason, þjálfari Fram eftir leikinn.

„Við sýndum karakter með að klára þetta í dag, þeir sem eftir stóðu gáfu allt í þetta og spilum vel. Fyrri hálfleikurinn var flottur þar sem við náum einu marki og bætum við strax í upphafi seinni hálfleiks en erum fljótir að missa forskotið niður í eitt mark aftur,“

Blikar voru aðeins örfáar mínútur að minnka muninn eftir að gestirnir komust í 2-0 og pressuðu stíft á lokamínútunum í leit að jöfnunarmarki.

„Við höfðum mikið hjarta í lokin og héldum það út þótt þeir hafi fengið góð færi. Maður sá það að það var allt undir hjá þeim og þeir fækkuðu í vörninni og fengu mjög góð færi. Sem betur vorum við góðir að verjast þeim og við vorum heppnir líka,“

Þetta var aðeins annar sigur Framara í síðustu 7 leikjum í deildinni.

„Við erum búnir að missa af allt of mörgum stigum í seinni umferðinni. Við erum að tapa leikjum með einu marki þar sem við höfum verið einhvern hluta leiksins með stigin í höndunum. Með sigrinum í dag náum við sem betur fer að lyfta okkur upp og það þarf mikið að gerast til að við sogumst aftur inn í fallbaráttuna,“

Ríkharður var þó ekki tilbúinn að segja að sæti Framara væri öruggt.

„Tæknilega séð þurfum við tvö stig en þetta var mikill léttir. Það verður ekki vandamál að mótivera menn í næstu leiki og við virðumst alltaf eiga eitthvað auka þegar við mætum liðum í stórum leikjum, þá erum við betri,“ sagði Ríkharður.

Ólafur: Orðlaus yfir færanýtingunniÓlafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks var ósáttur með sína lærisveina eftir tapið.

„Ég er ósáttur með að við spiluðum ekki eins og við ætluðum í fyrri hálfleik. Í þau skipti sem við fórum eftir því fengum við færi en það lagaðist sem betur fer í seinni hálfleik.“

„Við fengum tvö afburðafæri í fyrri hálfleik sem við nýtum ekki, svo í seinni hálfleik var boltinn að dansa á línunni og í stönginni hjá þeim án þess að koma boltanum inn,“

Blikar fengu aragrúa af færum í leiknum en náðu ekki að nýta þau og var eina mark þeirra var sjálfsmark.

„Í fyrra markinu sérðu ástríðu sem skorti hjá okkur í dag. Bæði hvernig bakvörðurinn náði boltanum og þegar Almarr náði boltanum og skoraði. Við getum ekki verið að kvarta, við náðum ekki að klára færin okkar og vörðumst ekki vel í þessum atriðum.“

„Í síðustu leikjum allt aftur til leiksins á Akranesi höfum við verið að fá helling af færum en ekki náð að nýta þau. Það er eins og menn séu í krummafót og menn setji hann alltaf á vitlausan stað, ég er orðlaus yfir færanýtingunni hjá okkur,“

Blikar náðu ekki að nýta sér misfarir FH og Stjörnunnar í keppninni um sæti í Evrópudeildinni.

„Við ætluðum að gera okkar og láta annað koma í ljós. Þegar þú horfir á úrslit kvöldsins er alveg óþolandi að hafa ekki nýtt þetta tækifæri. Menn geta öskrað og æpt í klefanum eftir leikinn en það er inn á vellinum sem þarf að klára leikina,“ sagði Ólafur.Almarr: Getum andað léttar núna„Það er alltof langt síðan síðast og þótt þetta hafi ekki verið fallegasti sigurinn er gott að taka þrjú stig heim,“ sagði Almarr Ormarsson, leikmaður Fram eftir leikinn.

„Blikar hafa verið eins og við að ströggla svolítið. Þeir eru hinsvegar með hörkulið, ofar en við í deildinni og það er sterkt að koma hingað og taka stigin þrjú,“

Liðin hafa mæst oft undanfarin ár og Framarar hafa haft ágætis tak á Blikum í þeim rimmum.

„Mér finnst eins og Blikar vilji ekki mæta okkur, þeir koma öðruvísi inn í leiki gegn okkur miðað við aðra leiki. Við komum líka öðruvísi inn í þessa leiki og ég væri alveg til í að sjá þessa grimmd í öllum leikjum. Það er kominn einhver smá rígur milli liðanna,“

Þetta var aðeins annar sigur Framara í síðustu 7 leikjum eftir að hafa unnið bikarinn í Ágúst.

„Ég hef ekki nein svör, það er leiðinlegt að segja að menn detti niður eftir bikarúrslitaleiki en það gerist, ég hef enga skýringu á þessu. Við erum samt ekkert búnir að vera að spila hræðilega, við vorum betra liðið gegn ÍBV fannst mér en úrslitin hafa ekki verið að koma,“

Með sigrinum gengu Framarar langt með að tryggja sæti sitt í Pepsi deildinni á næsta ári.

„Þetta er þæginlegra núna, við þurfum ekki að treysta á önnur lið og önnur úrslit. Maður getur andað aðeins léttar núna en ég vona að við getum bara klárað þetta í næsta leik,“ sagði Almarr.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×