Erlent

Bradley Manning dæmdur í 35 ára fangelsi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Bandaríski uppljóstrarinn Bradley Manning hefur verið dæmdur í 35 ára fangelsi. Frá dómnum dragast þeir 1.294 dagar sem hann hefur þegar setið í fangelsi.

Hann á möguleika á náðung eftir að hafa afplánað þriðjung dómsins, eða eftir um það bil áratug.

Jafnframt verður hann leystur frá herþjónustu með smán og fær ekki greidd laun frá hernum. Hann þarf hins vegar ekki að greiða neina sekt.

Manning er 25 ára hermaður sem lak fjölda leyniskjala frá bandaríska hernum til lekasíðunnar Wikileaks, sem hefur birt mikið af gögnum frá honum.

Hann átti yfir höfði sér allt að 90 ára fangelsi, en saksóknari hafði farið fram á 60 ára fangelsi. Í síðustu viku las hann upp stutta afsökunarbeiðni fyrir rétti í von um að það myndi  milda refsinguna.

Hann var sakfelldur í síðasta mánuði fyrir flesta ákæruliðina, að undanskildum þeim sem laut að því að hann hafi beinlínis aðstoðað óvini Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×