Erlent

Krefjast afsökunarbeiðni frá Bandaríkjunum

Forsetar Úrúgvaí, Argentínu og Bólivíu, þau Jose Mujica, Cristina Fernandez og Evo Morales, hittust í Bólivíu á fimmtudag ásamt leiðtogum fleiri Suður-Ameríkuríkja til að fagna heimkomu Morales.
Forsetar Úrúgvaí, Argentínu og Bólivíu, þau Jose Mujica, Cristina Fernandez og Evo Morales, hittust í Bólivíu á fimmtudag ásamt leiðtogum fleiri Suður-Ameríkuríkja til að fagna heimkomu Morales. Mynd/AP
Spænsk stjórnvöld segjast hafa fengið upplýsingar um að uppljóstrarinn Edward Snowden væri um boð í flugvél Bólivíuforseta, sem neyddist til að lenda í Austurríki fyrr í vikunni. 

Leiðtogar flestra ríkja Suður-Ameríku hittust í Bólivíu í gær og kröfðust þess að Bandaríkin bæðust afsökunar á atvikinu. Evo Morales, forseti Bólivíu, hótar því að loka bandaríska sendiráðinu.

„Þeir sögðu okkur að upplýsingarnar væru ótvíræðar, hann væri um borð,” segir Jose Manuel Garcia-Margallo, utanríkisráðherra Spánar. Hann vildi ekki segja hverjir „þeir” væru, sem höfðu fullyrt þetta, en segir að önnur Evrópuríki, sem meinuðu flugvél Bólivíuforseta að fljúga um lofthelgi sína á þriðjudag, hafi byggt ákvörðun sína á þessum sömu heimildum.

Morales ítrekaði í gær fullyrðingar sínar um að það hafi verið bandarísk stjórnvöld sem beittu Evrópuríki þrýstingi til að tryggja að flugvélin gæti ekki flogið beint frá Moskvu til Bólivíu, eins og til stóð. Hann hafði því neyðst til að lenda í Austurríki og bíða þar klukkustundum saman á meðan gengið var úr skugga um að Snowden væri ekki um borð.

Leiðtogar Suður-Ameríkuríkja eru Bandaríkjunum reiðir og segja þetta augljóst brot gegn fullveldisrétti Bólivíu. Auk þess sé þetta kjaftshögg fyrir alla álfuna.

„Sameinuð munum við sigrast á bandarísku heimsveldastefnunni,” sagði Morales á leiðtogafundinum, sem haldinn var í Cochabamba í Bólivíu í gær. „Við þurfum ekki á bandaríska sendiráðinu að halda,” bætti hann svo við.

„Við ætlum ekki að sætta okkur við að á 21. öldinni séu sum ríki fyrsta flokks, önnur annars flokks og enn önnur þriðja flokks,” sagði Rafael Correa á leiðtogafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×