Erlent

Fimm þúsund dauðsföll á mánuði í Sýrlandi

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir að nú hafi yfir 93 þúsund dauðsföll verið staðfest í stríðinu í Sýrlandi.

Stofnunin viðurkennir þó að þetta séu aðeins staðfest dauðsföll og að líklega sé raunverulegur fjöldi látinna miklu meiri. Stofnunin gaf síðast út tölur um dauðsföll í nóvember í fyrra, en þá höfðu rúmlega 60 þúsund dauðsföll verið staðfest. 

Að minnsta kosti fimm þúsund manns hafa látist í hverjum mánuði undanfarið ár.

80 prósent þeirra sem hafa látist eru karlmenn, en meira en 1.700 börn undir tíu ára aldri eru einnig meðal hinna látnu. Dæmi eru um að börn hafi verið pyntuð og tekin af lífi.

Þessar fréttir koma degi eftir útgáfu skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna um Sýrland. Samkvæmt henni hafa bæði stjórnvöld og uppreisnarmenn notað börn sem sjálfsvígssprengjumenn og mannlega skildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×