Erlent

"Ég heyrði í fiskunum éta lík félaga minna"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Maðurinn var svo lánsamur að loft festist inni á salerni skipsins sem varð honum til lífs.
Maðurinn var svo lánsamur að loft festist inni á salerni skipsins sem varð honum til lífs. Mynd/ Reuters/AFP

Nígerískur maður, Harrison Okene,  lifði af í tvo og hálfan sólarhring neðansjávar eftir að skip sökk þann 26. maí sl. með 12 manns innanborðs. Maðurinn var á salerni skipsins þegar það fór á hliðina og sökk loks með allri áhöfninni innanborðs.

Eftir tvo daga ofan í sjónum þar sem loftið lak hægt og rólega út úr bátnum komu svo tveir kafarar sem voru komnir til að sækja lík áhafnarinnar.

„Ég var þarna í vatninu í algjöru myrkri og hélt að þetta væru endalokin. Ég hélt alltaf að herbergið myndi fyllast af vatni en það gerðist ekki," sagði Okene í samtali við Reuters fréttastofuna. Hluti húðar Okene hafði flagnað af honum eftir að hafa verið í vatninu í svo langan tíma.

„Ég var mjög svangur en sérstaklega var ég ofboðslega þyrstur. Skinnið flagnaði af tungunni á mér vegna saltvatnsins."

Okene var á salerninu um borð í dráttarbátnum þegar hann fann að báturinn byrjaði að halla verulega. „Þegar ég kom út af salerninu var niðdimmt og við vorum að reyna að fikra okkur að útgöngulúgunni. Það voru þrír menn fyrir framan mig og skyndilega byrjaði vatnið að streyma inn. Ég sá þann fyrsta, svo annan og svo þann þriðja skola burt og ég vissi að þeir væru farnir."

Okene snéri sér þá við en var um leið skolað inn á annað salerni á bátnum og var þar þegar báturinn skall á sjávarbotninum. Okene var klæddur nærbuxunum einum saman og var inni á örlitlu salerninu, sem var á hvolfi, í einn sólarhring. Hann hélt sér uppi úr vatninu með því að hanga á vaskinum.

Fiskar átu félaga hans

Að því búnu synti hann inn í káetu skipstjórans sem var við hliðina á herberginu en á leiðinni varð Okene var við lík félaga sinna. „Það var niðdimmt og ískalt og ég sá ekkert," en Okene segist hafa fundið lyktina af líkunum. „Ég varð var við líkin af þeim. Það voru einhverjir fiskar byrjaðir að éta þá, ég heyrði hljóðin af því. Það var hræðilegt."

Okene reyndist vera um 30 metrum undir sjávarmáli þegar kafarar komu á staðinn til að athuga með lík áhafnarinnar. Hann heyrði í atgangi þeirra og byrjaði að banka í skipsskrokkinn í von um að kafararnir myndu heyra í honum, sem þeir gerðu. Þeim tókst að bjarga honum með því að setja á hann köfunarútbúnað en Okene þurfti að dveljast aðrar 60 klukkustundir í þrýstijöfnunarklefa á yfirborðinu til að lifa köfunina af.

Nánar á vef Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×