Erlent

Leigusali óskar eftir rostungi

Heimir Már Pétursson skrifar
Maðurinn sem fóðrar þennan vörpulega rostung er ekki umræddur leigusali.
Maðurinn sem fóðrar þennan vörpulega rostung er ekki umræddur leigusali.
Maður í Brighton í Bretlandi hefur auglýst eftir leigjanda á tveimur herbergjum í íbúð sinni, sem ekki væri í frásögur færandi nema leigusalinn fer fram á að leigjandinn klæðist rostungsbúningi í tvær klukkustundir á dag og hagi sér eins og rostungur. Á móti þarf leigjandinn ekki að borga fyrir leiguna.

Í auglýsingu í fríblaðinu Gumtree segir að leigusalinn hafi átt gott og langt líf í Alaska með rostungnum Gregory. Hann hafi aldrei átt eins góðan vin og Gregory og hann sakni hans innilega. Nú hafi hann saumað mjög sannfærandi rostungsbúning sem passi fólki í meðalstærð. Hann fer fram á að í þær tvær klukkustundir sem leigjandinn klæðist rostungsbúningnum verði hann að haga sér eins og rostungur, megi ekki tala en verði að gefa frá sér hljóð eins og rostungar gera. Leigusalinn bendir á að finna megi rostungahljóð á veraldarvefnum.

Þá fer leigusalinn fram á að væntanlegur leigjandi grípi fisk með munninum sem hann muni henda til hans af og til. Leigusalinn segist ætla að velja úr umsækjendum og þá er bara spurningin hversu margir vilja búa frítt fyrir það litla viðvik að bregða sér í hlutverk rostungs í litlar tvær klukkustundir á dag, í sumardvalarborginni Brighton í Bretlandi?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×