Erlent

Tölvuleikjaspilarar skarpari en aðrir í augunum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Tölvuleikjaáhugamenn þurfa gjarnan á fljótum viðbrögðum að halda
Tölvuleikjaáhugamenn þurfa gjarnan á fljótum viðbrögðum að halda
Tölvuleikjaspilarar „sjá heiminn í öðru ljósi," segir höfundur rannsóknar sem sýnir að þeir búa yfir betri sjónrænni skynjun en aðrir.

„Þeir þurfa minna af sjónrænum upplýsingum til að komast að niðurstöðu og þeir gera það hraðar," sagði Greg Applebaum, aðstoðarprófessor í sálfræði við læknadeild Duke háskóla í Norður-Karólínu.

Rannsóknin var framkvæmd á þann veg að þeir sem spiluðu tölvuleiki annars vegar og þeir sem gerðu það ekki hinsvegar voru látnir horfa á skjá þar sem stöfum brá fyrir í örstutta stund. Stafirnir voru í hring og birtust í 0,1 sekúndu, en síðan birtist ör sem stóð eftir inni í hringnum. Þáttakendurnir voru síðan beðnir um að segja hvaða stafur hefði verið þar sem örin benti.

Í ljós kom að tölvuleikjaspilarar eru mun fljótari að greina slíkar upplýsingar og draga ályktanir byggðar á þeim.

Fyrir vikið eru þeir sem hafa reynslu af tölvuleikjum eftirsóttir til að stýra ómönnuðum orrustuflugvélum.

DARPA, rannsóknarstofnun bandarískra yfirvalda í hernaðarmálum, fjármagnaði rannsóknina.

Þetta kemur frá á vef Wired.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×