Erlent

Rekinn fyrir að spyrja hvort makinn væri samkynhneigður

Ástralska útvarpsmanninum Howard Sattler var sagt upp á dögunum eftir að hann spurði Juliu Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, hvort eiginmaður hennar væri samkynhneigður. Ástæðan var sú að hann starfaði sem hárgreiðslumaður.

Málið hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð í Ástralíu og er sagt eitt af fjölmörgum dæmum um það sem Gillard hefur mátt þola í starfi sínu sem forsætisráðherra.

Sattler starfaði fyrir útvarpsstöðina Fairfax Radio sem rak hann eftir viðtalið og bað forsætisráðherrann opinberlega afsökunar á spurningunni.

Gillard svaraði spurningu útvarpsmannsins af stillingu, og sagði spurninguna fáránlega alhæfingu.

Kosningabaráttan er hafin í Ástralíu en þar verður gengið til kosninga í september. Nokkuð hefur gengið á í baráttunni, en meðal annars var gert grín að vaxtarlagi Gillard á fjáröflun á vegum stjórnarandstöðunnar, sem þykir líkleg til sigurs næsta haust.

Myndband með viðtalinu má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×