Erlent

Átök í Istanbúl

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þessi kona ræðir hér við lögreglumenn í höfuðborginni Instanbúl í morgun,
Þessi kona ræðir hér við lögreglumenn í höfuðborginni Instanbúl í morgun, Mynd/afp

Mótmælendur og lögregla tókust á í Istanbúl í Tyrklandi í nótt, annan daginn í röð, eftir að mótmæli fóru úr böndunum í gær. Hátt í hundrað manns þurftu á aðhlynningu að halda eftir átökin og um sextíu manns eru í haldi lögreglu.

Það sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu í gær. Þá höfðu mótmælendurnir safnast saman við Gezi listigarðinn í hjarta Istanbúl, stærstu borg Tyrklands. Mótmælin snéru að fyrirhugaðri uppbyggingu í og við garðinn. Það sauð upp úr eftir að lögregla beitti táragasi.

Átök hafa borist til annarra borga í nágrenni við Istanbúl og eru afar fjölmenn og hefur óeirðarlögregla verið kölluð út. Þá var táragasi beitt í stórborginni Ankara þar sem mótmælendur höfðu safnast saman.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og víðar hafa fordæmt viðbrögð stjórnvalda í Tyrklandi við mótmælunum. Talsmaður Bandaríkjastjórnar sagði þau ekki til þess fallin að tryggja stöðuleika og tjáningarfrelsi í landinu.

Þó svo að tilefni mótmælanna hafi verið uppbygging við Gezi listigarðinn þá virðist viss spenna hafa losnað úr læðingi meðal ungs fólks í garð yfirvalda í Tyrklandi. Frá því að Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra, komst til valda árið 2002 hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir stjórnarhætti sína.

Recep lýsti því yfir í gærkvöldi að framkvæmdir við listigarðinn myndu halda áfram og að viðbúnaður lögreglu yrði efldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×