Erlent

Obama var skammt frá skotárásinni í Santa Monica

Jóhannes Stefánsson skrifar
Rósa Amelía Árnadóttir, nemandi við Santa Monica College sagði í samtali við Vísi.is í gærkvöldi að hún hafi séð nemendur hlaupa út úr skólanum í öngþveiti.
Rósa Amelía Árnadóttir, nemandi við Santa Monica College sagði í samtali við Vísi.is í gærkvöldi að hún hafi séð nemendur hlaupa út úr skólanum í öngþveiti.

Að minnsta kosti fimm eru látnir og nokkrir slasaðir eftir að maður gekk berserksgang í Santa Monica í Kaliforníufylki og hóf skothríð á vegfarendur. Íslenskur nemandi í Santa Monica College varð vitni að árásinni.

Lögregluyfirvöld vestanhafs töldu í upphafi að sex hefðu látist í árásinni en nú hefur komið í ljós að fimm létust og er árásarmaðurinn á meðal hinna látnu. Talið er að fyrstu fórnarlömb árásarmannsins hafi verið faðir hans og bróðir.

Árásarmaðurinn notaðist við riffil í árásinni en hann var svartklæddur og með skotbelti vafið um sig. Hann var einnig íklæddur skotheldu vesti.

Árásarmaðurinn hóf skotárásina við hús nálægt skólanum en eldur kviknaði í húsinu vegna árárasinnar. Maðurinn mun að því búnu hafa gengið út á götuhorn þar sem hann hóf skothríð á ökumenn bíla sem áttu leið hjá. Því næst fór skotmaðurinn á skólalóð Santa Monica College þar sem vitni sagðist hafa séð manninn skjóta konu í höfuðið.

Árásin hélt svo áfram inni á bókasafni skólans en enginn varð fyrir skoti þar inni af hálfu árásarmannsinns. Árásarmaðurinn féll fyrir skotum lögreglu inni á bókasafninu.

Rósa Amelía Árnadóttir, nemandi við Santa Monica College sagði í samtali við Vísi.is í gærkvöldi að hún hafi séð nemendur hlaupa út úr skólanum í öngþveiti.

Hún sá síðan lögreglumenn bera þrjá út úr skólanum sem hún taldi hafa orðið fyrir barðinu á árásarmanninum.

Hún vissi ekki hvort þeir væru lífs eða liðnir.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var viðstaddur fjáröflunarviðburð skammt frá skotárásinni, sem átti sér stað um hádegisbil í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×