Erlent

Persónunjósnirnar nauðsynlegar í öryggisskyni

Jóhannes Stefánsson skrifar
Barack Obama hefur þótt umdeildur á kjörtímabilinu.
Barack Obama hefur þótt umdeildur á kjörtímabilinu. Mynd/ AFP

Barack Obama bandaríkjaforseti hélt uppi vörnum fyrir leynilegum persónunjósnum þarlendra yfirvalda á blaðamannafundi á föstudaginn og sagði þær nauðsynlegar til að tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Obama sagði persónunjósnirnar „lítilvægt inngrip" í friðhelgi einkalífsins sem væri nauðsynlegt enda væri að öðrum kosti ekki hægt að tryggja öryggi í landinu.

Njósnirnar eru hluti af verkefni sem nefnist PRISM sem er ætlað að gera stjórnvöldum kleift að safna upplýsingum um samskipti einstaklinga á netinu á leynilegan hátt.

„Það er enginn að hlusta á símtölin ykkar, það er ekki tilgangurinn með verkefninu," sagði Obama við blaðamenn á föstudaginn. Obama benti jafnframt á að þarlendir dómarar fylgdust með verkefninu og verkefnið hefði verið samþykkt af bandaríska þinginu.

Obama telur að með verkefnini hafi nauðsynlegu jafnvægi öryggis og friðhelgi nú verið náð og sagði „þú getur ekki verið 100% öruggur og á sama tíma notið 100% friðhelgi og engins óhagræðis."

Erfið mál safnast í kringum Obama

Hneykslið kom upp fyrr í vikunni en dómskjölum sem hafði verið lekið sýna að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) hefur kerfisbundið safnað tölvupóstum, Facebook-samtölum, skráarskiptum, myndum og öðrum gögnum notenda á samfélagsmiðlum á leynilegan hátt.

Hneykslið er eitt af röð annarra hneyksla sem hafa komið upp í stjórnartíð Obama, en fyrir skemmstu kom í ljós að bandarísk skattayfirvöld (IRS) hafa um árabil veitt ýmsum samtökum sem hafa mælt fyrir skattalækkunum eða minnkun ríkisvaldsins sérstaklega íþyngjandi meðferðir.

Þá hefur Obama ekki staðið við loforð sín um að loka hinum umdeildu Guantanamo fangabúðum auk þess sem hann hefur gengið mun harðar fram en forverar sínir gegn þeim sem viðhalda ekki trúnaði gagnvart þarlendum yfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×