Erlent

Eyjafjlakojland og OMGWTFLand meðal tillagna um nýtt nafn á Íslandi

Nafnasamkeppni Inspired by Iceland er að ná hámarki samkvæmt Huffington post en búið er að ákveða tvo möguleika á nýju nafni á Íslandi.

Með keppninni er auðvitað ekki ætlast til þess að fólk endurskíri landið, heldur er verið að reyna fá tillögur frá ferðamönnum í samræmi við upplifun þeirra af landi og þjóð. Samkeppnin er hluti Inspired by Iceland átakinu. Á vefsíðu herferðarinnar geta ferðamenn og aðrir varpað fram hugmyndum sínum. Nafnið verður síðan notað í markaðsherferðinni Ísland - allt árið.

Meðal uppástungna frá ferðamönnum er að landið eigi að heita OMGWTFLand (sem gæti útlagst sem: Guð-minn-góður-nei-hver-djöfullinn-landið) eða hreinlega "Eyjafjlakojland“, sem dregur þá nafn sitt af framburði túrista á þessum alræmda jökli.

Niceland kom sterkt inn en núna er búið að ákveða ferðamenn geta kosið á milli tveggja tillagna; sem eru: „Let’s Get Lost Land“ (e. Við-skulu- týna-okkur-landið) og „Isle of Awe Land“, sem er ansi illþýðanlegt og mætti kannski útleggja sem eyja guðdómlegrar fegurðar.

25 þúsund manns hafa tekið þátt í keppninni. Svo verður kosið endanlega um nafnið 26. apríl næstkomandi. Hvernig sem fer þá eru skilaboðin nokkuð skýr; Ísland er ekki jafn snjóþungt og nafnið gefur til kynna.

Hér má kynna sér átakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×