Erlent

Hugmyndir uppi í New York um að hækka lágmarksaldur til sígarettukaupa

Maður reykir sígarettu
Maður reykir sígarettu Mynd/ AFP
Yfirvöld New York borgar hafa lagt til að lágmarksaldur til að kaupa sígarettur í borginni verði hækkaður úr 18 árum í 21. Verði tillagan samþykkt, verður lágmarksaldurinn hvergi hærri ef litið er til stærri borga í Bandaríkjunum.

Tillagan myndi leiða til þess að áfengis- og sígarettukaupaaldur yrði sá sami í borginni, en ólíkt því sem gildir um áfengi væri einstaklingum undir 21 árs aldri ekki óheimilt að vera með sígarettur í vörslum sínum. Meðferð áfengis er ólögleg fyrir yngri en 21 árs.

Tillagan er nýjasta útspil Bloomberg borgarstjóra sem hefur linnulaust takmarkað réttindi reikingamanna í borginni. Bloomberg hefur þegar bannað reykingar á veitingahúsum, börum, almenningsgörðum, ströndum og öðrum almenningsstöðum.

Dr. Thomas A. Farley, sem fer með heilbrigðismál í borginni, kynnti tillöguna ásamt Christine C. Quinn, talsmanni borgarráðs. Tillagan þykir ganga langt og gerir borgina að miðpunkti deilna um réttindi og skyldur fullorðins fólks. Verði tillagan að veruleika, geta 18 ára íbúar New York barist í stríðum, keyrt og kosið, en ekki tekið ákvörðun um hvort þeir hyggist reykja eða ekki.

Quinn og Dr. Farley hafa varið tillöguna með því að benda á að fólk breytist jafnan úr því að reykja óreglulega í það að verða dagreykingamenn á aldursbilinu 18 til 20 ára og með því að draga úr aðgengi sígarettna á þessu aldursbili væri hægt að fækka þeim sem ánetjast sígarettum. „Við ætlum með þessari lagasetningu að einblína á þennan aldurshóp þar sem lang flestir reykingamenn byrja,“ sagði Quinn við þegar hún tilkynnti fjölmiðlum um tillöguna.

Margir New York búar hafa aðspurðir lýst yfir óánægju með tillöguna þar sem hún takmarkar athafnafrelsi og gerir lítið úr þroska ungs fólks.

„Þegar fólk er orðið 18 ára gamalt er það orðið nógu ábyrgt til að taka ákvarðanir um þetta sjálft,“ segir Erik Malave, 23 ára gamall nemi. „Að þvinga fólk til að lifa heilsusamlegu líferni hefur tilhneigingu til að mistakast.“ Malave segist hafa reykt seinastliðin þrjú ár og reykir um þrjár til fjórar sígarettur á dag. Hann telur tillöguna vera tímasóun vegna þess að ungt fólk á ekki í neinum vandræðum með að útvega sér sígarettur ef það vill. „Þegar ég varð 18 ára keypti ég sígarettur fyrir vini mína sem voru ekki orðnir 18,“ sagði hann.

Jessette Baurita, 21 ára borgarbúi segist hafa byrjað að reykja þegar hún var 17 ára og átti ekki í neinum vandræðum með að verða sér úti um sígarettur í gegnum vini sína sem keyptu þær fyrir hana. Hún var hissa að heyra um tillöguna og sagði af því tilefni: „Hvað varð um frelsið?“

Sjá nánar á vef New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×