Erlent

Ísland óvænt á meðal vinsælustu ferðamannastaða

Boði Logason skrifar
Ísland er á meðal þriggja vinsælustu ferðamannastaða sem Bretar heimsóttu á fyrsta fjórðungi ársins, samkvæmt kreditkortafærslum American Express.

Breskir ferðamenn fóru mest til Taílands, Egyptalands og Íslands. Það þykir sæta tíðindum að Ísland er á þessum lista í ljósi þess að miklar vetrarhörkur hafa verið í Bretlandi í vetur og því mætti ætla að ferðamennirnir vilji fara til heitari landa, eins og til dæmis Taílands og Egyptalands.

Fyrirtækið byggir upplýsingar á gjaldeyriskaupum kortahafanna á fyrstu mánuðum ársins.

„Það hefur verið mikill kuldi á Bretlandseyjum í byrjun ársins og samkvæmt færslum okkar viðskiptavina hafa þeir sótt í góða veðrið í Taílandi og í Egyptalandi. Og svo virðist sem þeir vilji heimsækja nýja áfangastaði eins og Ísland," segir Terry Perrin hjá American Express.

Taílenska bath-ið er einkar hagstætt gagnvart breska pundinu og sömu sögu er að segja um egypska pundið. Vefurinn Travelbite segir að þrjátíu og sex prósent aukning hafi verið í ferðamannageiranum á Íslandi á fyrstu mánuðum ársins - sem sé nýtt met hér á landi.

Vefurinn segir að líklega séu það Norðurljósin sem hafi heillað Bretana, en eins og við Íslendingar vitum eru þau einkar falleg á þessum tíma árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×