Erlent

Páfavalið er gullgæs fyrir írska veðbankann Paddy Power

Angelo Scola er með bestu líkurnar hjá Paddy Power í veðmálum um næsta páfa.
Angelo Scola er með bestu líkurnar hjá Paddy Power í veðmálum um næsta páfa.
Veðmál um hver verði næsti páfi er að verða helsta gullgæs ársins, að íþróttaveðmálum frátöldum, hjá írska veðbankanum Paddy Power.

Raunar hefur Paddy Power boðið upp á veðmál um hver verði næsti páfi allt frá því að Benedikt 16. tók við embættinu fyrir átta árum síðan. En eftir að hann sagði af sér hafa peningarnir rúllað inn til veðbankans. Sem stendur er búið að veðja yfir 50 milljónum króna á páfavalið.

Í undanfara þess að Benedikt 16. var valinn páfi hagnaðist Paddy Power um 160 milljónir kr. á veðmálum um hver yrði fyrir valinu á þeim tíma.

Flestir telja að Angelo Scola erkibiskupinn í Róm verði fyrir valinu en líkur á því í bókum Paddy Power eru 2 á móti 1. Næstur kemur Peter Turkson kardináli frá Ghana með líkurnar 4 á móti 1 og í þriðja sæti er Marc Quellet kardináli frá Kanada með líkurnar 10 á móti 1.

Líkur Quellet voru mun betri þar til hann skaut sig í fótinn nýlega í viðtali á CNN með því að segja að barnagirnd og samkynhneigð væru af sama meiði.

Það er ekki bara hægt að veðja á hvaða kardináli verði páfi. Fleiri persónur eru í boði og má nefna að hægt er að leggja fé undir að Bono söngvari U2 verði næsti páfi en þá eru líkurnar 1000 á móti einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×