Erlent

Indverjar handteknir fyrir að hópnauðga ferðamanni

Hjörtur Hjartarson skrifar
Frá mótmælum í Nýju Dehli fyrr í vetur.
Frá mótmælum í Nýju Dehli fyrr í vetur.
Átta karlmenn voru í gær handteknir, grunaðir um að hafa nauðgað svissneskri konu í Madhya Pradesh héraðinu á Indlandi samkvæmt fréttavef BBC. Eiginmaður konunnar lá bundinn hjá á meðan misþyrmingunum stóð.

Svissnesku hjónin voru á hjólaferðalagi í héraðinu en höfðu tjaldað fyrir nóttina í þorpi þar sem árásin átti sér stað. Lögreglan segir að hópur manna, vopnaðir bareflum hefðu ráðist á þau, barið og bundið eiginmanninn áður en þeir nauðguðu eiginkonu hans fyrir framan hann.

Að auki tóku árásarmennirnir fé og farsíma af hjónunum. Konan, sem er 39 ára, var flutt á sjúkrahús þar sem hún gaf yfirvöldum skýrslu. Átta menn voru í kjölfarið handteknir, grunaðir um verknaðinn.

Þrír mánuðir eru síðan 23 ára konu var nauðgað og myrt af hópi manna í strætisvagni í Nýju Delhi. Ódæðið vakti mikla reiði meðal almennings á Indlandi sem mótmælti hástöfum útbreiddu ofbeldi á konum í landinu og máttleysi yfirvalda gegn brotunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×