Erlent

Hugsanlegt að fleiri verði ákærðir í Steubenville-málinu

Ma'lik Richmond brast í grát þegar dómur var kveðinn upp.
Ma'lik Richmond brast í grát þegar dómur var kveðinn upp. Mynd / AP
Nauðgunin í Steubenville í Ohio hefur vakið heimsathygli og ekki að ástæðulausu. Tveir piltar, Trent Mays, 17 ára, og Ma'Lik Richmond, 16 ára, voru dæmdir í að minnsta kosti eins árs refsivist í unglingafangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 16 ára stúlku sem þeir frömdu í byrjun ágúst á síðasta ári. Það er hugsanlegt að þeir þurfi að sitja inni þangað til þeir verða 21 árs gamlir.

Saksóknarinn sem sótti málið segir því ekki lokið, nú verði rannsakað hvort aðrir verði ákærðir í málinu, bæði vegna þess að þeir tilkynntu ekki um brotið, og fyrir að hafa ekki brugðist við því sem gerðist kvöldið örlagaríka.

Eins og greint var frá á Vísi í fyrr í dag nýttu piltarnir sér bágt ástand stúlkunnar, sem var ofurölvi, með ógeðfelldum hætti. Þannig mynduðu þeir hana nakta og í niðurlægjandi aðstæðum auk þess sem þeir stungu fingri í leggöng stúlkunnar. Stúlkan mundi ekkert eftir atvikinu þegar hún vaknaði nakin daginn eftir í húsi sem hún kannaðist ekki við. Fljótlega kom í ljós að piltarnir höfðu ekki aðeins myndað stúlkuna heldur birt myndirnar á Instagram.

Félagar og viðhlæjendur piltanna göntuðust með ástand hennar á netsíðunni og göntuðust með það hvort piltarnir hefðu ekki örugglega nauðgað henni. Skömmu eftir að myndirnar birtust á netinu voru þær teknar út. Þó ekki fyrr en nokkrum klukkustundum síðar.

Málið hefur ekki síst vakið athygli vegna þess hvernig samfélagið, smábærinn Steubenville, þar sem átján þúsund manns búa, brugðust við brotinu. Ruðningslið bæjarins nýtur mikillar virðingar og snýst bæjarlífið að miklu leytinu til um liðið. Þannig klofnaði samfélagið nánast í tvennt þar sem annar helmingurinn taldi stúlkuna ljúga til um verknað piltanna og að hún hafi verið samþykk því sem sást á myndunum, sem hún var augljóslega meðvitundarlaus á.

Því er meðal annars haldið fram að þjálfari ruðningsliðsins hafi vitað um brotin og hugsanlega reynt að þagga niður í þeim, en þjálfurum í menntaskólum er skylt lögum samkvæmt í Bandaríkjunum að tilkynna strax um kynferðisbrot gegn ungmennum vakni grunur um slíka glæpi.

Umræðan í bæjarfélaginu um málið varð svo heiftarleg að fjölskylda stúlkunnar fengu líflátshótanir. New York Times greindi frá því í desember síðastliðnum að lögreglumenn vöktuðu hús þeirra til þess að tryggja öryggi fjölskyldunnar.

Þá var umræðan á samfélagsmiðlunum einnig harkaleg. Fórnarlambið var meðal annars sakað um að ata ruðningsliðið auri að ástæðulausu og að hún hefði getað kennt sjálfri sér um hvernig fór þar sem hún var ofurölvi. Varnir piltanna fyrir rétti voru af svipuðum toga.

Þegar piltarnir voru sakfelldir í dag báðu þeir fórnarlambið og fjölskyldu hennar afsökunar. Richmond sagði grátandi að lífi hans væri lokið.

Refsingu Trent Mays lýkur ekki þegar hann sleppur úr unglingafangelsi því þá er honum gert að sæta eins árs fangelsi fyrir að hafa myndað stúlkuna nakta.

Það sem er hrollvekjandi við málið er að fjölmörg ungmenni urðu vitni af því sem piltarnir gerðu við stúlkuna, en aðhöfðust ekkert. Meðal þeirra var fyrrverandi kærasti stúlkunnar.

Lögreglustjóra bæjarins, William McCafferty, rataðist líklega rétt á munn þegar hann sagði í viðtali við New York Times: „Ef það væri hægt að ákæra fólk fyrir að vera ekki heiðvirðar manneskjur, hefðu margir verið ákærðir þetta kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×