Erlent

„Hryllingshótelið“ á sér langa sögu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Konan fannst í vatnstanki uppi á þaki hótelsins.
Konan fannst í vatnstanki uppi á þaki hótelsins.
Cecil-hótelið í Los Angeles, þar sem lík 21 árs gamallar konu fannst í vatnstanki uppi á þaki síðastliðinn þriðjudag, á sér langa og hrollvekjandi sögu. Reyndar svo hrollvekjandi að hótelið er vinsælt túristastopp, og leiðsögumenn kalla það "Hryllingshótelið".

Tveir frægir raðmorðingjar hafa gist á hótelinu, þeir Richard Ramirez og Jack Unterweger. Ramirez bjó í herbergi á efstu hæð hótelsins árið 1985, en á árunum 1984 til 1985 myrti hann að minnsta kosti fjórtán manns. Unterweger er talinn hafa myrt þrjár vændiskonur þegar hann gisti á hótelinu árið 1991.

Leiðsögukonan Kim Cooper segir í samtali við fréttastofu CNN að margir hafi fyrirfarið sér í gegn um tíðina með því að kasta sér fram af þaki hótelsins og efri hæðum þess. Sérstaklega hafi það verið algengt á sjötta og sjöunda áratugnum.

Raðmorðingjarnir Richard Ramirez (t.v.) og Jack Unterweger bjuggu báðir á hótelinu.Samsett mynd.
Dvalarstaður hinna óheppnu

Cooper segir einnig sögu af morði sem var framið á hótelinu sjálfu, en símadaman "Pigeon Goldie" Osgood hafi fundist látin á herbergi sínu sumarið 1964 eftir að hafa verið nauðgað, stungin og að lokum kyrkt. Málið er óupplýst enn í dag.

Hótelið var byggt á þriðja áratug síðustu aldar og var ætlað kaupsýslumönnum sem þurftu einungis að dvelja örfáa daga í borginni. Fljótlega hafi þeir þó sótt í betri hótel í fínni hverfum og Cecil-hótelið drabbaðist niður.

"Það varð að dvalarstað fyrir óheppið fólk," segir Cooper, en meira varð um ódýra langtímaleigu á hótelinu, þar sem gestir deildu salernum á göngunum.

"Frá 1970 og til aldamóta voru hundruðir manna, margir hverjir jaðarsettir í samfélaginu, sem áttu heima á Cecil-hótelinu."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×