Erlent

Drög að Marsferð kynnt - Óska eftir þolinmóðum geimförum

MYND/GETTY
Ferðalög til Mars, næsta nágranna Jarðar, eru greinilega ekki fjarlægur möguleiki, ef marka má bandaríska auðkýfinginn Dennis Tito og hugmyndir hans. Á blaðamannafundi í dag svipti milljarðamæringurinn hulunni af fyrirtækinu The Inspiration Mars Foundation sem ætlar að senda fyrstu geim-ferðalangana til Mars árið 2018.

Tito er í forsvari fyrir breiðan hóp fjárfesta, vísindamanna og verkfræðinga sem hafa sérstakan áhuga á rauðu plánetunni. Á fundinum í dag sagði Jane Poynter hjá PSDC geimvísindastofnunni að verkefnið væri í sjálfu sér afar einfalt.

„Við munum ekki lenda á Mars," sagði Poynter. „Markmiðið er að fljúga framhjá plánetunni og það með hjálp tækni sem nú þegar er í þróun hjá bæði NASA og öðrum alþjóðlegum stofnunum."

Sama hvað Tito og samstarfsmenn hans halda fram er ferðalag til Mars ekkert smámál. Hópurinn þarf að yfirstíga vandamál sem geimvísindamenn hafa unnið að í áraraðir. Þar á meðal má nefna þá miklu geislun sem finna má í geimnum, rýrnun vöðva og beina hjá geimförum ásamt sálfræðilegum vandamálum sem fylgja löngum geimferðum.

Þeir sem vonast til að húkka far með geimskutlunni árið 2018 skulu síðan hafa varann á, enda verður ævintýrið eins ólíkt því sem finna má í vísindaskáldskap og mögulegt er. Á blaðamannafundinum kom fram að heildartími ferðarinnar verði rúmlega 500 dagar. Þá verða vistaverurnar ekki sjarmerandi enda þær eru á stærð við meðalstórt bílastæði. Ein sturta, eitt herbergi og ekkert næði.

Þá er ljóst að Tito og félagar þurfa ekki aðeins að sigrast á verkfræðilegum vandamálum heldur einnig fjárhagslegum. Tito mun aðeins fjármagna hluta verkefnisins og hefur því biðlað til fjárfesta um leggja hönd á plóg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×