Enski boltinn

Markalaust í fjörugum leik

Southampton og Everton máttu sætta sig við markalaust jafntefli í lokaleik 23. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld, þrátt fyrir að hafa bæði fengið nóg af færum til að skora.

Þetta var fyrsti leikur Mauricio Pochettino sem var ráðinn þjálfari Southampton fyrir helgi, eftir að Nigel Adkins var sagt upp störfum.

Leikmenn Southampton virtust taka nýja stjóranum vel því liðið byrjaði mjög vel og stjórnaði ferðinni algerlega í fyrri hálfleik. Ricky Lambert fékk til að mynda nokkur færi til að skora en nýtti þau ekki.

David Moyes náði að skerpa á sínum mönnum í hálfleik því Everton spilaði betur í upphafi seinni hálfleiks og skapaði sér nokkur góð færi. En allt kom fyrir ekki.

Markverðirnir Artur Boruc og Tim Howard áttu báðir fínan leik og endurspeglan markatalan það.

Everton er nú komið í 38 stig en liðið er í fimmta sæti deildarinnar. Southampton er með 23 stig í fimmtánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×