Íslenski boltinn

Skagamenn reikna með að lána 5-6 stráka áður en Íslandsmótið hefst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skagamenn fagna hér marki í Pepsi-deildinni síðasta sumar.
Skagamenn fagna hér marki í Pepsi-deildinni síðasta sumar. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA, er í viðtali á heimasíðu félagsins þar sem hann talar um yngri flokka starf félagsins og það að félagið hafi oft á tíðum brugðið á það ráð að lána leikmenn til liða í neðri deildum með góðum árangri.

„Við höfum fundið fyrir talsverði eftirspurn eftir ungum og efnilegum leikmönnum meistaraflokks karla sem hafa verið að banka á dyrnar hjá aðalliðinu en í fyrra lánuðum við einmitt þó nokkra leikmenn til liða í 1. og 2.deild," segir Þórður á heimasíðunni og bætir við:

„Það hefur reynst vel þar sem þessir drengir fá þar góðan spiltíma og öðlast í senn mikla reynslu sem vonandi nýtist þeim seinna meir hjá sínu uppeldisfélagi. Eftirspurnin núna er aðallega að koma frá liðum úr tveimur næst efstu deildum Íslandsmótsins en við gerum ráð fyrir að lána einhverja 5-6 leikmenn til liða áður en Íslandsmótið hefst í vor," segir Þórður.

Æfingahópur meistaraflokks karla hjá ÍA er fjölmennur þessar vikurnar en félagið hefur einhverja 27 leikmenn á skrá hjá sér þegar rúmir þrír mánuðir eru í fyrsta leik liðsins í Pepsi-deildinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×