Enski boltinn

United hafði betur í risaslagnum gegn Liverpool

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Robin van Persie fagnar marki sínu.
Robin van Persie fagnar marki sínu. Nordic Photos / Getty Images
Manchester United lagði Liverpool að velli 2-1 í viðureign liðanna á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. United hefur tíu stiga forskot á grannana í City á toppi deildarinnar en City mætir Arsenal síðar í dag.

Heimamenn höfðu yfirburði í fyrri hálfleik og Robin van Persie kom þeim yfir á 19. mínútu eftir fyrirgjöf Patrice Evra. Liverpool skapaði sér ekki hálffæri í hálfleiknum og útlit fyrir þægilegan seinni hálfleik hjá lærisveinum Sir Alex Ferguson.

Brendan Rodgers skipti Daniel Sturridge inná í hálfleik og hann átti eftir að koma við sögu. Fyrst skoraði þó Nemanja Vidic skallamark þegar skalli Patrice Evra breytti um stefnu af honum á leiðinni í netið. Þremur mínútum síðar, á 57. mínútu, fylgdi Sturridge eftir skoti Steven Gerrard og minnkaði muninn.

Liverpool var síst lakari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Sturridge skaut yfir úr dauðafæri og tvö skot hans úr hálffærum fóru framhjá markinu. Á hinum endanum varði Reina vel frá Kagawa og van Persie.

United hefur tíu stiga forskot á Manchester City, tímabundið hið minnsta, en City mætir Arsenal í Lundúnum í síðari leik dagsins. Liverpool situr áfram í 8. sæti deildarinnar með 31 stig.

Leikurinn var í beinni textalýsingu í Boltavakt Vísis. Sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×