Enski boltinn

City braut 37 ára gamalt blað með sigri á Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Edin Dzeko fékk kjörið tækifæri til að koma City yfir á 10. mínútu en vítaspyrna hans var varin á skrautlegan hátt.
Edin Dzeko fékk kjörið tækifæri til að koma City yfir á 10. mínútu en vítaspyrna hans var varin á skrautlegan hátt. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City vann nokkuð þægilegan 2-0 útisigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. City-menn spiluðu manni fleiri stærstan hluta leiksins og skoruðu bæði mörkin í fyrri hálfleik.

Leikurinn var aðeins tíu mínútna gamall þegar Laurent Koscielny var vikið af velli fyrir brot á Edin Dzeko í upplögðu færi. Bosníumaðurinn misnotaði vítaspyrnuna en átti eftir að bæta fyrir það.

James Milner kom gestunum yfir með frábæru marki á 21. mínútu eftir sendingu Carlos Tevez. Ellefu mínútum síðar batt Dzeko endahnútinn á góða sókn gestanna og setti boltann yfir línuna af stuttu færi.

Arsenal gekk illa að skapa sér færi manni færri og City nær því að bæta við mörkum en hitt. Vincent Kompany fékk rautt spjald stundarfjórðungi fyrir leikslok fyrir brot á Jack Wilshere. Belginn verður því í banni í næstu umferð líkt og Koscielny.

City minnkaði muninn á toppi deildarinnar í sjö stig á nýjan leik. Manchester United hafði náð tíu stiga forskoti fyrr í dag með sigri á Liverpool. Arsenal er áfram í sjötta sæti deildarinnar.

City hafði ekki unnið Arsenal á útivelli síðan árið 1975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×