Enski boltinn

Walters breyttist úr skúrki í hetju í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Walters og Kenwyne Jones fagna í kvöld.
Jonathan Walters og Kenwyne Jones fagna í kvöld. Mynd/AFP
Jonathan Walters breyttist úr skúrki í hetju í kvöld þegar hann skoraði tvö mörk fyrir Stoke-liðið í endurteknum leik í 3. umferð enska bikarsins. Um síðustu helgi varð hann fyrir því óláni að skora tvö sjálfsmörk og klikka á víti í tapleik á móti Chelsea en Walters tryggði Stoke 4-1 sigur á Crystal Palace í kvöld með því að skora tvö mörk í framlengingu.

Kenwyne Jones kom Stoke í 1-0 með skallamarki á 69. mínútu en Glenn Murray jafnaði metin úr vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok. Þetta var annað víti Palace-liðsins í leiknum því danski markvörðurinn Thomas Sorensen varði þá fyrri frá Jermaine Easter.

Jonathan Walters kom Stoke í 2-1 á fimmtu mínútu í framlengingu þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Matthew Etherington sem lagði líka upp markið fyrir Jones.

Walters innsiglaði síðan sigurinn á 110. mínútu eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir frá Kenwyne Jones. Cameron Jerome skoraði síðan fjórða markið í uppbótartíma. Stoke mætir Manchester City í 32 liða úrslitum keppninnar.

Tom Cairney tryggði Hull 2-1 útisigur á Leyton Orient í framlengingu og þar með leik á móti Barnsley í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×