Enski boltinn

Tottenham og United skildu jöfn eftir dramatískar lokamínútur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd. / Getty Images
Manchester United og Tottenham Hotspurs gerði 1-1 jafntefli á White Hart Lane í London í dag. Robin van Persie skoraði eina mark United í dag en Clint Dempsey jafnaði metin í uppbótartíma.

Leikurinn hófst nokkuð rólega en gestirnir frá Manchester voru ívið sterkari og héldum boltanum betur innan liðsins.

Það kom kannski ekki á óvart að það var Hollendingurinn Robin van Persie sem kom United yfir á 25. mínútu leiksins þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Tom Cleverley. 14. mark Persie í deildinni en United hefur ekki enn tapað í deildinni í vetur þegar Robin van Persie skorar mark.

Staðan var 1-0 í hálfleik. Síðari hálfleikurinn var mun rólegri og voru liðin í vandræðum með að skapa sér færi. Tottenham var töluvert sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum en það var David de Gea, markvörður Manchester United, sem kom í veg fyrir að heimamenn myndu jafna metin.

Hann varði nokkrum sinnum stórkostlega en sá spænski hefur fengið mikla gagnrýni á sig á tímabilinu. Jöfnunar markið kom samt sem áður og þá kom de Gea við sögu en á 93. mínútu leiksins kom fyrirgjöf inn í vítateig United sem markvörðurinn sló skelfilega illa út í teiginn og beint á leikmann Tottenham sem sendi knöttinn á Clint Dempsey sem renndi boltanum í netið.

Leiknum lauk því með jafntefli 1-1 en United er í efsta sæti deildarinnar með 56 stig. Tottenham er í því fjórða með 41 stig.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×