Erlent

Sprengju varpað á bensínstöð

Breki Logason skrifar
Talið er að allt að sjötíu hafi farist þegar sprengju var varpað á bensínstöð í Damaskus höfuðborgar Sýrlands í morgun. Sameinuðu þjóðirnar segja að um sextíu þúsund séu látnir frá því uppreisnin hófst í landinu í mars á síðasta ári. Það er rétt að vara við myndum sem fylgja þessari frétt.

Nokkuð er á reiki hversu margir létust í sprengjuárásinni en sjónarvottar segjast hafa séð herflugvélar varpa sprengjum á bensínstöðina í þann mund sem verið var að fylla á bensínbirgðir stöðvarinnar.

Eins og sjá má á þessu myndbandi sem tekið er á síma skömmu eftir árásina má sjá lík á götum og brunna bíla en talsmenn mótmælenda í landinu segja að um sjötíu hafa látist og tugir særst. Margir af þeim látnu séu börn og konur.

Mikill eldsneytisskortur er í Sýrlandi og oft myndast langar raðir við bensínstöðvar og þá sérstaklega þegar þær eru fylltar af bensíni.

AP fréttaveitan hefur eftir sjónarvotti að einu loftskeyti hafi verið skotið að bensínstöðinni en í kjölfarið varð gríðarlega mikil sprenging með fyrgreindum afleiðingum.

BBC segir að hverfið þar sem árásin var gerð sé ekki á valdi uppreisnarmanna og því bendi allt til þess að flestir sem létust séu óbreyttir borgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×