Erlent

Hneyksli skekur 600 ára gamlan háskóla í Leipzig

Hneyksli sem tengist líffæraígræðslum skekur nú hina 600 ára gömlu menntastofun, háskólann í Leipzig í Þýskalandi.

Þessi aldagamli háskóli hýsir í háskólasjúkrahúsi sínu eina af virtustu skurðstofum Evrópu þar sem líffæraígræðslur fara fram. Í ljós hefur komið að forráðamenn skurðstofunnar hafa breytt forgangsröð þeirra sjúklinga sem áttu rétt á líffæraígræðslu, þ.e. tekið sjúklinga aftarlega úr biðröðinni og látið þá fara strax í aðgerð. Þetta var gert þannig að viðkomandi sjúklingar voru greindir mun veikari en þeir voru í rauninni.

Í frétt um málið í Deutche Welle segir að búið sé að reka bæði æðsta yfirmann skurðstofunnar og tvo þekkta lækna sem störfuðu þar.

Wolfgang Fleig forstjóri háskólasjúkrahússins segir að hann sé með böggum hildar vegna þessa máls og útilokar ekki að mútur hafi verið með í spilinu. Fleig segir ennfremur að hann hafi ætíð staðið í þeirri góðu trú að forráðamenn skurðstofunnar hafi farið eftir þýskum lögum í einu og öllu.

Annað hefur komið á daginn og málið er til opinberrar rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×