Erlent

Prófuðu flóðbylgjusprengjur árið 1944

Gömul leyniskjöl sem nýlega fundust í skjalasafni nýsjálenska hersins sýna að Bandaríkjamenn og Nýsjálendingar þróuðu og prófuðu sprengjur sem gátu framkallað flóðbylgjur á síðustu árum seinni heimstyrjaldarinnar.

Það var rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Ray Waru sem fann þessi skjöl. Í þeim kemur fram að tilraunir með þessar flóðbylgjusprengjur fóru fram við strendur Nýju Kaledóníu sumarið 1944 sem var þá og er enn franskt yfirráðasvæði.

Alls voru 3.700 sprengjur notaðar við prófanir á þessu nýstárlega vopni en Bandaríkjamenn vonuðust til þess að með þessum sprengjum væri hægt að skapa flóðbylgjur sem væru allt að 10 metrar á hæð, það er nægilega öflugar til að leggja minni borgir við strendur Japans í rúst.

Í ljós kom að til að skapa svo stóra fljóðbylgju þyrfti um 2.000 tonn af sprengiefni sem sprengt var í um 8 kílómetra fjarlægð frá ströndinni. Bandaríkjamenn lögðu þessi áform til hliðar í upphafi ársins 1945 en Nýsjálendingar héldu áfram að þróa þetta vopn.

Flóðbylgjusprengjan var endanlega blásin af þegar árangurinn af kjarnorkusprengjunum sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki kom í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×