Erlent

Ætla að grafa upp 36 Spitfire orrustuflugvélar í Burma

Hópur sérfræðinga er nú á leið til Burma en ferð þeirra þangað er lokahnykkurinn í 17 ára langri leit að 36 Spitfire Mark XIV orrustuflugvélum sem grafnar voru í jörðu þar í landi skömmu eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk.

Sá sem stjórnar leitinni er bóndinn David Cundall frá Lincolnskíri í Englandi en hann komst á snoðir um þessar Spitfirevélar árið 1996. Til eru gögn um að vélarnar, sem þá voru nýjar af nálinni og enn í trékössunum sem þær voru fluttar í, hafi verið grafnar í jörðu að skipun Mountbatten lávarðar. Ástæðan var að engin not fundust fyrir þær á þessum tíma, það er í lok ársins 1945.

Hópurinn mun hefja leit sína við alþjóðaflugvöllinn í Yangoon en heimildir eru fyrir því að Spitfirevélarnar séu grafnar niður við endann á einni flugbrautinni þar. Raunar gæti verið að allt að 124 flugvélar af ýmsum gerðum úr stríðinu séu grafnar í jörðu á þessu svæði.

Samkomulag hefur náðst við stjórnvöld í Burma um að hagnaðurinn af sölu þessara flugvéla skiptist jafnt milli stjórnvalda og hópsins.  Algengt verð á Spitfirevélum sem eru í góðu ásigkomulagi hleypur á einni til tveimur milljónum punda eða allt að 400 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×