Erlent

Ávapaði þjóð sína í fyrsta skiptið í hálft ár

Bashar al-Assad
Bashar al-Assad
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, kennir utanaðkomandi öflum um uppreisnina í landinu og segir að stríð geisi ekki á milli uppreisnarmanna og stjórnarliða heldur þjóðarinnar og erlendra óvina hennar.

Assad ávarpaði þjóð sína í morgun en meira en hálft ár er liðið frá síðasta opinbera ávarpi forsetans. Hann var harðorður í garð erlendra ríkja og kenndi þeim um stöðuna sem upp er komin í landinu, án þess þó að nefna einstök lönd á nafn. Sýrlenska þjóðin ætti í stríði við erlenda óvini, hún yrði nú að standa saman gegn þeim. Óvinirnir væru skipulagðir hryðjuverkamenn og morðóðir glæpamenn og nú þyrfti að mæta þeim að fullum krafti.

Assad sagði þjáningu Sýrlendinga yfirþyrmandi og að þeir gætu ekki glaðst vegna skorts á öryggi og stöðugleika. Hann talaði jafnframt um friðartillögur þar á meðal breytingar á stjórnarskrá en ekkert sem hann sagði í ávarpi sínu bendir til að hann ætli að láta af völdum á næstunni.

Sýrlenska stjórnarhernum hefur þrátt fyrir mikla baráttu uppreisnarmanna tekist að halda öllum lykilborgum landsins á sínu valdi. Uppreisnarmennirnir hafa hins vegar stórt svæði í norðurhluta landsins á sínu valdi. Átökin hafa undan farið færst nær höfuðborginni Damaskus. Sameinuðu þjóðirnar telja að á tæpu ári hafi yfir sextíu þúsund manns fallið í átökunum um stjórn landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×