Erlent

Kínverjar glíma við mestu vetrarhörkur undanfarin 30 ár

Kínverjar glíma nú við mestu vetrarhörkur og mesta kulda í landinu á undanförnum þremur áratugum.

Blindbylir og frost hafa sett samgöngur úr skorðum, þjóðvegum hefur verið lokað, flug hefur legið niðri og rafmagnsleysi hrjáir íbúa í mörgum héruðum Kína.

Að sögn kínversku veðurstofunnar hefur meðalfrostið í landinu öllu frá því í nóvember mælst tæpar fjórar gráður á celsius. Þetta er mesti kuldi síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Í norðlægari héruðum landsins hefur meðalfrostið verið mínus 15 gráður á þessu tímabili og í sumum héruðum í Innri Mongólíu hefur meðalfrostið farið niður í mínus 40 gráður.

Í frétt um málið á vefsíðu China Daily segir að sökum kuldans sitji um 1.000 skip föst í hafís á Bohai hafinu. Og um helgina þurfti að loka þjóðveginum milli Bejing og Hong Kong í gegnum Hunan hérað vegna mikillar ísingar á honum.

Veðurstofan spáir því að vetrarhörkurnar muni færast í aukana í suðurhluta Kína á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×