Enski boltinn

Bradford í góðri stöðu eftir tveggja marka sigur á Aston Villa

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Wells skorar fyrsta mark leiksins.
Wells skorar fyrsta mark leiksins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bradford City sem leikur í fjórðu efstu deild á Englandi gerði sér lítið fyrir og sigraði úrvalsdeildarlið Aston Villa 3-1 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins í kvöld.

Leikið var á Coral Windows leikvanginum í Bradford þar sem Bradford komst yfir strax á 19. mínútu. Nahki Wells sendi þá boltann framhjá Shay Given markverði Villa.

Norður-Írinn Rory McArdle bætti öðru marki við fyrir Bradford á 77. mínútu og kom liðinu í mjög vænlega stöðu en Austurríkismaðurinn Andreas Weimann kom Aston Villa aftur inn í einvígið með skallamarki sjö mínútum fyrir leikslok.

Adam var ekki lengi í paradís og skallaði hinn 19 ára gamli Íri, Carl McHugh, knöttinn í mark Aston Villa  á 88. mínútu og tryggði Bradford ótrúlegan tveggja marka sigur.

Bradford er í sjöunda sæti fjórðu efstu deildar á Englandi en liðið hefur leikið frábærlega í deildarbikarnum og er ljóst að Aston Villa þarf að sýna sínar bestu hliðar í seinni leiknum á Villa Park 22. janúar til að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×