Erlent

Forseti Írans harðlega gagnrýndur fyrir að faðma móður Chavez

Pólitískir andstæðingar forseta Írans hafa gagnrýnt hann harðlega fyrir að hafa faðmað móður Hugo Chavez í jarðarför Chavez í Venesúela um helgina.

Á myndum frá jarðarförinni má sjá hvar Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans tekur grátandi móður Chavez, hina 78 ára gömlu Elenu Frias de Chavez, í faðm sér og huggar hana í sorg sinni.

Pólitískir andstæðingar forsetans í Íran hafa brugðist ókvæða við þessum myndum og segja að Ahmadinejad hafi móðgað virðingu Íslams og gerst sekur um haram í jarðarförinni. Haram er hugtak yfir alvarleg brot gegn íslömskum trúarlögum. Haram kveður m.a. á um að enginn maður má snerta konu af annarri trú en íslam undir neinum kringumstæðum.

Gagnrýnin hefur gengið svo langt að íhaldssamir klerkar í Íran segja forsetann hafa misst stjórn á sér og saka hann um athæfi sem jaðri við trúvillu.

Í erlendum fjölmiðlum kemur fram að þessi gagnrýni tengist harðri valdabaráttu sem fer fram bakvið tjöldin um hver eigi að taka við stöðu Ahmadinejad sem næsti forseti Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×