Enski boltinn

Van Persie er ekki nógu ánægður með sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollendingurinn Robin van Persie er búinn að skora 10 mörk í síðustu 10 leikjum sínum með Manchester United og alls 22 mörk á sínu fyrsta tímabili á Old Trafford en hann er þó ekki nógu sáttur með frammistöðuna hjá sér ef marka má viðtal hans við The Sun.

„Þetta hefðu átt að vera fjórtán eða fimmtán mörk hjá mér í þessum tíu leikjum. Það eru í það minnsta fjögur eða fimm færi sem ég átti að skora úr," sagði Robin van Persie í umræddu viðtali.

„Ég fékk einnig tækifæri til að skora fleiri en eitt á móti Tottenham og ef ég hefði nýtt eitthvert þeirra þá hefðum við unnið leikinn," sagði Van Persie sem lýsir tilfinningunni að vera kominn til United eins og fyrir barn að koma inn í nammibúð.

„Þegar ég kom fyrst til Arsenal þá sá ég Dennis Bergkamp og Thierry Henry gera hluti sem ég hafði aldrei séð áður. Nú upplifi ég það sama hjá Manchester United og ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað. Ég er eins og lítið barn í nammibúð," sagði van Persie við The Sun.

Það er hægt að sjá markið hans á móti Tottenham með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×