Enski boltinn

Enska sambandið skoðar ummæli Sir Alex

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gagnrýndi annan aðstoðardómarann harðlega eftir 1-1 jafntefli Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina og nú gæti hann verið kominn í vandræði hjá aganefnd enska knattspyrnusambandsins.

Enska sambandið hefur beðið stjóra Manchester United um að útskýra ummæli sín eftir leikinn en þar tók Sir Alex aðstoðardómarann Simon Beck fyrir. Ferguson heimtaði vítaspyrnu fyrir meint brot á Wayne Rooney en Tottenham tryggði sér stig með því að jafna leikinn í uppbótartíma.

Það er ljóst að Sir Alex Ferguson gleymir engu því hann rifjaði einnig upp að umræddur aðstoðardómari hafi einnig hafi ekki flaggað á greinilega rangstöðu á Didier Drogba í 1-2 tapi Manchester United á móti Chelsea í apríl 2010. Ferguson lét meðal þau orð falla að það gengi ekki vel hjá liðinu þegar Simon Beck væri á línunni.

Sir Alex Ferguson hefur til klukkan sex á fimmtudaginn til að gera grein fyrir sínum orðum en þetta er ekki í fyrsta sinn sem skoski stjórinn kemur sér í vandræði vegna ummæla um dómara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×