Enski boltinn

Bikarævintýri Bradford heldur áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hanson og félagar fagna marki hans í kvöld.
Hanson og félagar fagna marki hans í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Bradford varð í kvöld fyrsta D-deildarliðið í meira en 50 ár sem kemst í úrslit ensku deildabikarkeppninnar. Liðið komst áfram eftir 4-3 samanlagðan sigur á Aston Villa.

Bradford vann fyrri leik liðanna á heimavelli, 3-1, og mátti því við því að tapa með tveimur mörkum gegn einu í kvöld.

Christian Benteke kom Villa yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og voru yfirburðir heimamanna miklir.

En James Hanson skoraði gott skallamark fyrir gestina á 55. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Andreas Weimann skoraði annað mark Villa rétt fyrir leikslok en það dugði ekki til.

Leikmenn og stuðningsmenn Bradford fögnuðu því ótrúlegum sigri og sæti í úrslitaleiknum sem fer fram á Wembley-leikvanginum þann 24. febrúar.

Sigurvegari ensku deildabikarkeppninnar fær keppnisrétt í Evrópudeild UEFA á næsta tímabili. Bradford mætir annað hvort Chelsea eða Swansea í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×