Erlent

Ætla að einkavæða bresku póstþjónustuna

Jóhannes Stefánsson skrifar
Bresk yfirvöld segja einkavæðinguna vera rökrétt skref.
Bresk yfirvöld segja einkavæðinguna vera rökrétt skref. Mynd/ AFP

Breska póstþjónustan, Roal Mail, hefur verið starfrækt af hinu opinbera allar götur síðan 1516 þegar hún hóf að flytja bréf og pakka fyrir Henry áttunda. En allt er þetta breytingum háð því nú hyggjast bresk stjórnvöld einkavæða Royal Mail.

Einkavæðingin er liður í því að hagræða í rekstri hins opinbera en lengi hefur staðið til að einkavæða póstþjónustuna.

Eins og gilti um póstþjónustur í öðrum löndum drógust tekjur Roal Mail verulega saman þegar tölvupóstsamskipti tóku við af hefðbundum sniglapósti, en þetta hefur þó breyst eftir að menn hafa í auknum mæli farið að versla vörur á netinu.

Royal Mail er einn stærsti vinnuveitandi Bretlands og bresk yfirvöld hafa ákveðið að 10% af hlutafé þess skuli verða í eigu starfsmanna þess.

Breski atvinnuvegaráðherrann, Michael Fallon, sagði í ræðu í aprílmánuði að einkavæðingin væri „rökrétt og hagnýt út frá viðskiptasjónarmiðum." Fallon bætti við: „Ef Royal Mail hefur ekki aðgang að lausafjármörkuðum í bráð og lengd þá er útséð að hvert einasta pund sem félagið tekur að láni er pund sem bætist á skuldir ríkissjóðs. Enginn ábyrgur aðili gæti lagt slíkt til við núverandi ástand."

Verkalýðsfélagið „Communications Union," sem starfar í umboði starfsmanna póstþjónustunnar hefur lagst gegn einkavæðingunni. Verkalýðsfélagið segir einkavæðinguna munu verða slæma fyrir starfsmenn og viðskiptavini félagsins. Talsmaður verkalýðsfélagsins sagði „Bankar munu græða 30 milljónir punda þegar hið opinbera selur Royal Mail. Enn og aftur eru það viðskiptavinirnir sem munu tapa þegar verðin hækka og þjónustan minnkar og það verða bankarnir sem græða milljónir."

Verkalýðsfélagið hefur einnig bent á að Margaret Thatcher sem einkavæddi á sínum tíma orku og fjarskiptafyrirtæki lagðist alltaf gegn einkavæðingu Royal Mail. Thatcher mun hafa sagt að hún ætlaði sér ekki að einkavæða „höfuð drottningarinnar," en frímerki Royal Mail eru merkt myndum af englandsdrottningu.

Nánar er fjallað um málið á vef NYTimes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×