Enski boltinn

Torres: Mér var sama um gengi Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres, leikmaður Chelsea, segir að sér hafi liðið svo illa á síðasta keppnistímabili að honum hafi staðið á sama um hvort að lið hans ynni eða tapaði leikjum.

„Þegar tímabilið var um það bil hálfnað hætti ég að trúa á þau gildi sem ég ólst upp við," sagði Torres í samtali við fjölmiðla á Spáni.

„Í mínu liði voru leikmenn sem var alveg sama um gengi liðsins vegna þess að þeir voru ekki að spila. Ég vildi aldrei verða slíkur leikmaður en einn daginn áttaði ég mig á því að þetta ætti líka við um mig."

„En ég lærði að taka sjálfan mig til skoðunar og gerði mér grein fyrir því að sá eini sem gæti breyst væri ég sjálfur."

Torres segir að hann hafi breyst sem leikmaður þegar hann spilaði undir stjórn Andre Villas-Boas. „Ég breyttist vegna þess að ég fór að spila fyrir liðið, þrátt fyrir að það hafi bitnað á mér persónulega. Ég hljóp fyrir aftan varnarmenn, inn í svæði og bauð mig fram. Stundum liðu 70 mínútur án þess að ég snerti boltann."

„Þetta var mjög ólíkt þeim leikstíl sem ég spilaði þegar ég var undir Rafa Benitez hjá Liverpool. Ég var óhamingjusamur og það sást."

„Þegar við skiptum um þjálfara hjá Chelsea og Roberto Di Matteo tók við varð leikstíllinn aðeins líkari þeim hjá Benitez. Við þá breytingu gerði ég mér grein fyrir því að ég var orðinn betri leikmaður enda get ég gert hluti sem ég gat ekki áður."

Torres segist ekki sjá eftir því að hafa farið til Englands á sínum tíma og að Liverpool hafi hentað honum best þá. „Ég stend Liverpool í þakkarskuld. Liverpool verður ávallt stór hluti af mínu lífi," sagði hann en félagaskipti hans til Chelsea á sínum tíma voru afar umdeild.

„Ég ákvað að fara til að taka næsta skref á mínum ferli. Aðstæður voru ekki þær bestar og voru upplýsingarnar matreiddar til fólksins. Einn daginn kemur sannleikurinn í ljós."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×