Erlent

Illskeytt vampíra vekur upp vonir um ferðamannaiðnað

Síðustu daga hafa íbúar í þorpinu Zarozje í vesturhluta Serbíu verið á varðbergi vegna vampíru sem er sögð ganga laus á svæðinu. Ferðamenn hafa hinsvegar tekið annan pól í hæðina og streyma nú í þennan afskekkta hluta landsins.

Bæjaryfirvöld tilkynntu um vampíruna eftir að gömul kornmylla hrundi til grunna skammt frá þorpinu. Eftir því sem þjóðsögur herma bjó ein elsta og þekktasta vampíra Serbíu í myllunni, Sava Savanovic.

Árum saman hafði Sava aðsetur í myllunni. Talið er að vampíran hafi ítrekað ráðist á bændur í gegnum tíðina og drukkið blóð þeirra.

Myllan hefur því verið sveipuð dulúð. Bændur hættu brátt að mylja korn sitt í myllunni. Voru þeir handvissir um að Sava myndi svipta þá sálinni.

Vampírur gegna veigamiklu hlutverki í þjóðsögum Suðaustur-Evrópu — þekktasta vampíran er vafalaust Drakúla greifi. Það var einna helst á átjándu öld sem óttinn við vampírur náði nýjum hæðum. Fjölmargir voru ofsóttir vegna gruns um djöfullega háttsemi og opinberar aftökur voru daglegt brauð.

En tímarnir breytast og nú streyma túristar til Zarozje til að komast í tæri við raunverulegu vampíru.

Miodrag Vujetic, sem situr í bæjarstjórn Zarozje, er efins um tilvist vampírunnar. Hann ítrekar engu að síður að nauðsynlegt sé fyrir þorpið að nýta sér þann áhuga sem myndast hefur um Sava.

„Ef Rúmenar gátu hagnast á Drakúla þá hljótum við að geta gert slíkt hið saman þegar kemur að honum Sava," sagði Vujetic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×